Leðurblakan

Studland, Dorset, UK

 

Tveggja hæða íbúðarhús situr ásamt öðrum einbýlishúsum í einfaldri röð og snúa framhliðinni að skóglendi. Gatan er róleg íbúðargata í dreifbýli sem byggðist upp eftir seinni heimsstyrjöldina á Studland skaganum í Purbeck við suðurströnd Englands innan sérstaks verndarsvæðis sem í Bretlandi kallast ´Area of Outstanding Natural Beauty´.

Við vorum beðin um að hanna viðbyggingu aftan við núverandi byggingu til að stækka samverurými hússins þannig að byggingin gæti nýst bæði sem heimili og samkomustaður fyrir stórfjölskylduna. Verkefnið vatt fljótt upp á sig: lítil viðbygging við framhlið hússins sem taka átti eftir, smáhýsi neðst í bakgarðinum, auk landslags- og innanhússhönnunar. 

Þetta er eitt af fáum svæðum í Englandi þar sem náttúran hefur fengið að vera tiltölulega óhreyfð: dádýr í lausagöngu og mikill fjöldi friðaðra dýra og plöntutegunda. Áður en sótt var um byggingarleyfi voru því gerðar rannsóknir bæði í garðinum og húsinu sjálfu til að tryggja að ekki væri hróflað við tegundum í útrýmingarhættu. Fundust þá ummerki um leðurblökur í þaki hússins og ósjálfrátt varð hugmyndin að leðurblökuhúsinu til.

Útkoman varð þannig að leik með umhverfinu: nýir byggingahlutar klæddir breskri furu sem tilvísun í strendurnar og skóglendið í kring. Landslagshönnun var innblásin af Purbeck heiðunum og gróður valinn með tilliti til þess. Leðurblökurnar eiga enn samastað í þakinu í gegnum þar til gerð op auk þess sem þær hafa aðgang að litlum leðurblökuhúsum sem eru áföst húsinu og gamla eikartrénu í garðinum.


Verkefni unnið hjá dust architecture.

Previous
Previous

Villa Giuggiola

Next
Next

Garðskrifstofa